Hvatningarverðlaun Skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur

Hér eru þær Marta Gunnarsdóttir og Jóhanna Þorvaldsdóttir frumkvöðlar Fimmunnar í Kelduskóla.

Kelduskóli hlaut viðurkenningu fyrir verkefnið  „Fimman – kennsluaðferð“. Fimman er viðleitni kennara Kelduskóla til þess að sporna gegn hrakandi lestrarfærni nemenda og um leið árangursrík leið að bættum námsárangri. Aðferðin virkar mjög vel og hefur slegið í gegn hjá kennurum, nemendum og foreldrum. Vinna Kelduskóla að Fimmunni hefur vakið athygli víða. Má þar nefna að læsisráðgjafar Menntamálastofnunar hafa fylgst með framvindu hennar sem og aðrir grunnskólar.
Það er mat dómnefndar að hér sé um að ræða metnaðarfullt verkefni  sem hefur það markmið að bæta námsárangur og líðan nemenda. Verkefnið hefur stuðlað að auknum lestraráhuga nemenda og foreldrar verða áþreifanlega varir við árangur aðferðarinnar.
Verðlaunin voru afhent á árlegri öskudagsráðstefnu grunnskólanna í Reykjavík.