Skip to content

Íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík

Íslenskuverðlaun unga fólksins voru veitt á degi íslenskrar tungu við hátíðlega athöfn í Hörpu. Verðlaunin, sem nú voru afhent í þrettánda sinn, eru veitt þeim nemendum sem hafa sýnt færni, frumleika að sköpunargleði við að tjá sig á íslensku í ræðu og/eða riti, þeim sem hafa sýnt leikni í að nota tungumálið sem samskiptatæki, ýmist í hagnýtu eða listrænu skyni, t.d. á sviði samræðulistar eða ljóðrænnar framsetningar og þeim sem hafa tekið miklum framförum í íslensku. Markmiðið með verðlaununum er að auka áhuga ungs fólks á íslenskri tungu og hvetja það til framfara í tjáningu talaðs máls og ritaðs. Verndari verðlaunanna er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.

Frosti Freyr Davíðsson, nemandi í 6. bekk, hlaut verðlaunin í ár. Í umsögn um Frosta Frey segir:

Frosti Freyr er áhugasamur um ljóð og ljóðagerð. Hann semur eigin ljóð sem oft eru innihaldsrík og skemmtileg aflestrar. Hann hugar að rími, lengd ljóða og er alltaf að reyna að gera betur. Hann les ljóð upp úr ljóðabókum sem hann kemur með að heiman fyrir aðra nemendur og er góð fyrirmynd í bekknum sínum vegna áhugans sem hann sýnir á ljóðum. Frosti er að semja eigin ljóðabók sem hann hyggst gefa út. Hann er öruggur í framkomu og hefur jákvæð áhrif á nemendahópinn.

Þess má geta að ljóðabók Frosta Freys ber heitið Lífið og leikendur og verður gefin út von bráðar.