Skip to content

Skólareglur Kelduskóla

Skólareglur, viðurlög og ferli við brotum á þeim eru samin með hliðsjón af lögum um grunnskóla nr. 91/2008 en þar segir í upphafi 14. greinar. Nemendur bera ábyrgð á eigin námi og framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.

Við í Kelduskóla:

• Mætum stundvíslega í skólann. Foreldrar / forráðamenn tilkynna veikindi eins fljótt og kostur er á skrifstofu skólans. Tilkynna þarf veikindi daglega.

• Komum fram af kurteisi og sýnum tillitssemi í samskiptum við alla í skólanum.

• Göngum vel um bæði úti og inni og förum vel með eigur skólans, eigin eigur og annarra. Nemendur bera ábyrgð á því tjóni sem þeir kunna að valda á eigum skólans, starfsmanna eða annarra nemenda.

• Erum á skólalóð í frímínútum og hádeginu, skólalóðin markast af göngustígum umhverfis hana.

• Geymum hjól og hlaupahjól við hjólagrindur á skólatíma og vélhjól á bílastæði skólans. Við notum ekki þessi farartæki á skólalóðinni á skólatíma af öryggisástæðum.

• Berum sjálf ábyrgð á þeim fjármunum eða verðmætum sem við komum með í skólann. Skólinn tekur ekki ábyrgð á persónulegum munum né fjármunum.

• Höfum slökkt á farsímum í kennslustundum og skulu símar ekki vera sýnilegir.

• Hvers kyns mynda- og hljóðupptökur eru óheimilar í skólahúsnæði Kelduskóla nema með sérstöku leyfi skólastjórnenda.

Umsjónarkennarar setja frekari reglur um umgengni og almenn samskipti í samráði við nemendur sína og nemendur semja sínar eigin bekkjarreglur í tengslum við Uppeldi til ábyrgðar.

Komi upp vandamál vegna hegðunar og/eða ástundunar nemanda eru þau leyst í samvinnu við nemendur og foreldra. Ef ekki tekst að leysa vandann þannig, leitar umsjónarkennari eftir aðstoð hjá skólastjórn og ráðgjöfum skólans.

Ef ekki reynist unnt að leysa vandann innan skólans er leitað annarra leiða í samvinnu við Menntasvið Reykjavíkur og Barnavernd Reykjavíkur.

Skólareglurnar eru kynntar nemendum og foreldrum þeirra á skólakynningarfundi 22.ágúst. Umsjónarkennarar fjalla um og útskýra reglurnar í sínum umsjónarhópum.

Skólabragur, Uppeldi til ábyrgðar

Ákveðið var á sameiginlegum vinnufundi starfsfólks og foreldra í febrúar að innleiða Uppbyggingarstefnuna í Kelduskóla. Skipaður hefur verið sérstakur stýri hópur sem heldur utan um innleiðinguna . Námskeið var fyrir starfsfólk skólans var haldið í ágúst 2013 og 2014. Einnig hafa verið fræðslu og umræðufundir um Uppeldi til ábyrgðar reglulega og verður því framhaldið á skólaárinu 2016 -2017. Lögð er áhersla á bekkjarsáttmála, bekkjarfundi og vinnu með tilfinningar.

Hrós

Þegar nemendur sýna háttvísi og góða hegðun er mikilvægt að því sé fylgt eftir og hrósið berist heim til foreldra. Mentor tölvukerfi skólans er notað til að hrósa nemendum með þessum hætti.

Agaferill

Þegar nemendur sýna óæskilega hegðun er reynt að fremsta megni að leiðrétta þá hegðun. Ef það tekst ekki er ákveðinn agaferill sem fer af stað. Skráning á óæskilegri hegðun fer í gegnum Mentor tölvukerfi skólans. Einnig er haft samband við foreldra símleiðis eða með tölvupósti og þeir boðaðir á fund ef þörf krefur