Skip to content
kelduskoli_logo

Velkomin á heimasíðu

KELDUSKÓLA

Kelduskóli er heildstæður grunnskóli í Grafarvogi. Starfstöðvarnar eru tvær, Vík við Hamravík 10 og Korpa við Bakkastaði 2. Einkunnarorð skólans eru virðing, ábyrgð og áræðni.

Kelduskóli hóf starfsemi 3. janúar 2012 þegar Korpuskóli og Víkurskóli voru sameinaðir. Stefnumótunarvinna með aðkomu foreldra, nemenda og starfsmanna fór fram í ársbyrjun 2012 og var stefna skólans unnin út frá þeim forsendum sem og þeim grunni sem skólastarfið byggir á frá starfi Korpuskóla og Víkurskóla.

Nemendur eru um 360 og við skólann starfa rúmlega 60 starfsmenn. Hjúkrunarfræðingur frá Heilsugæslu Grafarvogs kemur þrjá morgna í viku og sér um skólaheilsugæslu. Sálfræðiþjónustu og aðra sérfræðiþjónustu fær skólinn frá Þjónustumiðstöð Miðgarðs. Sundkennsla fer fram í Grafarvogslaug og íþróttakennsla fer fram í íþróttahúsi skólans.

 

Í Kelduskóla er unnið að því að þróa skólasamfélag þar sem fram fer einstaklings- og hópamiðað nám með markvissum og skipulögðum hætti. Unnið er að því að samfella verði í námi og það myndi heild. Lögð er áhersla á sveigjanlega kennsluhætti og samvinnu nemenda. Einnig er áhersla lögð á samþættingu námsgreina og þemabundið nám. Lagt er upp með teymisvinnu kennara, kennarar vinna saman í teymum að undirbúningi náms og kennslu.  Kelduskóli er Grænfánaskóli og hefur sett sér umhverfisstefnu þar sem lögð er áhersla á að auka þekkingu og virðingu nemenda fyrir umhverfi sínu og skapa jákvætt viðhorf nemenda og starfsmanna til umhverfismála.