Einelti

Áætlun gegn einelti

Einstaklingur er lagður í einelti ef hann verður fyrir endurteknum neikvæðum samskiptum frá einum eða fleiri einstaklingum. Einelti er ofbeldi og félagsleg útilokun sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þolandann. Sá sem verður fyrir einelti getur fyllist ótta og uppgjöf og er ekki fær um að verja sig eða þola álagið.
Stríðni, átök og einstakur ágreiningur milli jafningja telst ekki til eineltis.  Þegar vitneskja berst um einelti til skólans frá nemanda, forráðamönnum eða starfsfólki skólans, er henni komið til umsjónarkennara. Hann ákveður næstu skref eftir eðli málsins og kallar til samstarfs við sig þá aðila sem þurfa þykir.
Forvarnaráætlunin gegn einelti Kelduskóla er byggð á Olweusaráæltuninni sem Víkurskóli og Korpuskóli hafa starfað eftir. Markmið hennar er að koma í veg fyrir einelti og aðra andfélagslega hegðun. Einnig á hún að skapa skólabrag þar sem allir geta notið sín í leik og starfi.
Reglulega er fylgst með líðan nemenda m.a. með könnunum. Niðurstöður þeirra hafa gefið starfsfólki Kelduskóla skýra mynd af stöðu eineltismála í skólanum.  Eftirlitskerfi skólans, s.s. í frímínútum, á göngum og í baðklefum er endurskoðað reglulega, bekkjarfundir nemenda eru a.m.k. tvisvar sinnum í mánuði þar sem nemendum gefst kostur á að ræða um sín málefni.
Það sem við getum öll gert:
Taka einelti alvarlega og koma í veg  fyrir að það eigi sér stað.
Afla góðra upplýsinga þegar við verðum vör við einelti.
Hvetja börnin til að segja frá einelti og styðja við bakið á þeim.
Hjálpa sérhverju barni sem verður fyrir einelti.
Aðstoða börn sem leggja önnur börn í einelti, við að breyta hátterni sínu.
Gera börnunum grein fyrir að einelti í skóla hefur áhrif á kennslu og nám allra nemenda í bekknum þar sem einelti viðgengst.
Upplýsa börn og fullorðna um að einelti skekkir sjálfsmynd og skerðir sjálfstraust barna, sem fyrir því verða. 

Verkferlar kennara til að takast á við einelti

Við göngum út  frá þeirri forsendu að við stöndum frammi fyrir vanda. Nemanda/þolanda líður illa í skólanum, viðkomandi verður fyrir einelti af hálfu samnemenda.  Kennari á að forðast ásakanir og biður ekki um nákvæmar upplýsingar á einstökum atriðum , markmiðið er að gerandi átti sig á eða geri sér grein fyrir vanlíðan þolanda (sé vitað hver  gerandi er).
Til að fá upplýsingar skal miðað við eftirfarandi:
Einstaklingsviðtöl við alla þá sem eiga hlut að máli  ( 7-10 mínútur).
Bekkjafundur með viðkomandi bekk/bekkjum.
Samtöl eftir viku við sömu nemendur, þolenda/ur og geranda/ur ( 3 mínútur).
Fundur þar sem bæði þolandi og gerandi hittast  ásamt foreldrum eða forráðamönnum, 30 mínútur.
1.1.      Samtal við þolanda
Markmiðið er að veita stuðning, benda á betri leiðir í samskiptum og að gefa þolanda tækifæri til að koma með tillögur að lausnum.
Það er líklegt að kennarinn hafi áður rætt við þolandann, t.d. þegar hann var að afla sér upplýsinga um það hvort einelti hafi átt sér stað eða ekki. Það er mikilvægt að þolandinn hafi tækifæri til þess að koma með tillögur að lausnum. Í samtali við þolanda er áhersla á að styðja viðkomandi, t.d. með því að kenna honum  betri og farsælli leiðir í samskiptum. Ávallt verður að hafa í huga að barn sem þolað hefur langvarandi einelti gæti þurft aðstoð til lengri  tíma frá námsráðgjafa, sálfræðingi eða öðrum utanaðkomandi aðila.
1.1.1.    Samtöl eftir viku (eru einnig einstaklingsviðtöl)
Tillögum fylgt eftir.
Hrósa fyrir góðan árangur.
Hvetja áfram ef illa gengur.
Ræða hvað gekk illa og af hverju.
Nýjar tillögur ef þörf er á.
Tilkynnt um næsta fund, hann dagsettur og allur hópurinn hittist saman.
1. 2.     Viðtöl við gerendur
Nánari útfærsla einstaklingsviðtala:
Undirbúningur:  Umsjónarkennari þarf að afla upplýsinga, t.d. hver  forsprakkinn er í hópnum, hver  viðbrögð þolandans eru við eineltinu.  Það þarf að hafa í huga hvar og hvernig viðtölin fara fram. Ekki skal gefa fyrirvara, kennari getur einfaldlega sagt rétt áður en samtölin eiga sér stað að nú þurfi hann að ræða við viðkomandi nemendur.
Tími: Fyrstu samtölin þurfa að vera hvert á eftir  öðru.
Staðsetning:  Nauðsynlegt er að það sé sem minnst truflun – helst engin. Mikilvægt er að kennarinn (sá sem tekur viðtölin) sitji í sömu hæð og nemandinn.
Röð samtala: Það er mikilvægt að byrja á því að ræða við þann sem umsjónarkennarinn telur að sé forsprakkinn í hópnum. Hafa verður í huga að forsprakkinn er ekki endilega sá sem sést leggja í einelti heldur getur hann stjórnað og beitt öðrum fyrir sig. Næst er að ræða við aðra gerendur . Það er mjög mikilvægt að taka viðtölin í þessari röð til að forsprakkinn komi afslappaður út úr viðtalinu og gefi þannig jákvæð skilaboð til hinna um það að það sé ekkert að óttast.
Viðhorf: Einelti getur vakið sterk viðbrögð hjá börnum og fullorðnum. Viðhorf kennarans gagnvart gerendum skal vera  hlutlaust og hann má ekki dæma fyrirfram. Kennarinn verður að hlusta á það sem gerandinn segir og gerandinn verður að skilja það að eineltið verði að stoppa.  Það er mikilvægt að umsjónarkennarinn ásamt öðrum aðila tali við alla nemendur sem koma að málinu.
Ef nemandi kemur ekki með tillögu að úrbótum/lausnum skaltu gefa honum svigrúm til þess að hugsa sig um. Það er allt í lagi að það komi þagnir. Ef nemanda dettur ekkert í hug getur kennarinn komið með tillögu með samþykki nemandans t.d. með því að segja: Má ég koma með tillögu? Gott er að skrifa niður allar tillögur. (Algengar tillögur eru að láta X í friði, bjóða X að vera með í leik, skrifa bréf til X eða hringja og biðjast fyrirgefningar).
Næsta skref í viðtalinu: Þetta er gott í dag. Við tölum aftur saman í næstu viku og ræðum hvernig þér hefur gengið að fara eftir þessari tillögu þinni/tillögum þínum. Setja nýjan fund og skrá fundartímann á gátlistann.
Aðferðin byggir á því að gerandinn finni fyrir sektarkennd og reyni að losa sig við hana með því að fylgja tillögunum eftir. Það eflir einnig gerandann þegar hann finnur að honum er treyst fyrir því að finna lausn á málinu.
Samtöl við gerendur: Nota alltaf  „þú“ setningar, forðast að spyrja hvað „þið“ gerið eða hvað „þið“ getið sagt til um málið (það styrkir eineltishópinn).
Það er allt í lagi að hafa þagnir – gott að gefa nemendum svigrúm til að hugsa.
Ef nemandi vill ekki tjá sig þá er besta að enda viðtalið: Þú vilt greinilega ekki ræða þetta í dag – best að hætta í dag eða þú mátt fara núna. Margir nemendur byrja að tala á þessu augnabliki.
Í engum tilvikum skal nemanda hótað refsingu eða hann ásakaður.
Forðist spurningar og umræður um hvað sé rétt eða rangt. Gerandi reynir oft að réttlæta hegðun sína með því að  skella skuldinni á þolandann.
Gerendur láta oft í ljós reiði gagnvart þolandanum. Það skal  ekki vísa tilfinningum gerandans á bug en leggðu áherslu á vanlíðan þolandans.
Markmiðið er að koma gerandanum í skilning um að þolandanum  líður illa. Það getur hjálpað að biðja geranda að setja sig í spor þolandans (ímyndaðu þér hvernig þér myndi líða...). Gott er að styðjast við klípusögur sem eru heimfærðar upp á aðstæðurnar.
„Það er greinilegt að X líður mjög illa (leggja áherslu á mjög illa) í skólanum/bekknum. Ég var að velta því fyrir mér hvað þú gætir gert til að breyta þessu, hvað dettur þér í hug?”.
Það er gott að hvetja nemandann og hrósa, t.d. með því að segja ,,gott hjá þér, ég sé að þú vilt hjálpa X”
Skrifaðu niður tillögurnar sem nemandinn kemur með.
Ekki afneita óraunhæfum tillögum á neikvæðan hátt. Hægt er að spyrja: Myndi ástandið batna ef þú gerðir þetta?
Ef nemandi kemur með tillögu um eitthvað sem einhver annar gæti gert er best að segja: Ég átti við eitthvað sem þú gætir gert sjálf/sjálfur.
1.3. Bekkjarfundir 
Kennari kynnir umræðuefni og stýrir umræðum þannig að þeir sem alla jafna tala lítið fái tækifæri til að tjá sig.  Ekki þvinga neinn til að taka þátt. Líklega munu allir taka þátt smá saman. Í sumum tilvikum gæti verið gott að kynjaskipta bekknum á bekkjafundum.
Grundvallarreglur:
Við réttum upp hönd áður en við tökum til máls.
Aðrir fá að ljúka máli sínu án þess að gripið sé fram í fyrir þeim.
Við berum virðingu fyrir skoðunum annarra þó svo að við séum ekki (alltaf) sammála.
Allir hafa leyfi til að tjá sig.
Þegar fundi lýkur þá er umræðum lokið og óæskilegt að þeim sé haldið áfram á göngum skólans, það skal tekið fram á fundinum.
Nánari lýsing á bekkjarfundum má finna í 6. kafla í handbók Olweus (sem hægt er að nálgast á skólasafninu). Þar má meðal annars finna umræðuefni sem geta opnað á umræðuna um einelti.
  1.4.      Fundur með foreldrum/forráðamönnum
Ef vel hefur gengið í viðtölum við þolanda/gerendur  getur verið freistandi að sleppa  þessum fundi!  Hann er engu að síður mjög mikilvægur því markmiðið er að komast að samkomulagi um hvernig eigi að bæta samskipti til langs tíma. Lagt er til að kennari ásamt öðrum starfsmanni (helst námsráðgjafa) hitti gerendur og þolendur saman ásamt foreldrum en að sjálfsögðu verður að liggja fyrir samþykki þolandans fyrir því.
1.Farið er yfir málið á hlutlausan hátt og hvað búið er að gera (styðjast við gátlista). Mikilvægt er að tala jákvætt um bæði geranda/gerendur og þolanda/þolendur í viðurvist foreldra.
2.Sett er niður aðgerðaráætlun um bætt samskipti viðkomandi nemenda sem foreldrar samþykkja. Það er ekki endilega markmiðið að vinátta myndist á milli aðila heldur að gagnkvæm virðing ríki. Ræðið um hugtök eins og umburðarlyndi og virðingu; hvernig við getum umborið hvert annað þó við séum ekki endilega bestu vinir.
3.Það getur verið gott að ákveða annan fund, t.d. eftir 3-6 vikur til að fylgja málum eftir. Það er mjög mikilvægt að kennari fylgist vel með því hvort inngrip hans hafi borið árangur.
Skráning eineltismála - eyðublað
Eineltisáætlunin er endurskoðuð árlega.

Prenta | Netfang