Móttaka nýrra nemenda

 Móttaka nemenda í 1. bekk

Foreldrar og væntanlegir nemendur í 1. bekk eru boðaðir í skólann í maí áður en skólaganga nemandans hefst og fá þá kynningu á skólastarfinu í Kelduskóla. Nemendur hitta einnig umsjónarkennara sinn á sama tíma. Að hausti mæta nemendur með foreldrum sínum í viðtal við umsjónarkennara áður en skólastarf hefst. Fyrsta skóladaginn fylgja foreldrar börnum sínum í skólann og er þeim síðan boðið í morgunkaffi með stjórnendum þar sem gefst færi á óformlegu spjalli um skólabyrjunina. Í september er foreldrum boðið á ítarlega kynningu á starfi skólans og viðfangsefnum nemenda.

 Móttaka nýrra nemenda

Í Kelduskóla er lögð áhersla á að taka vel á móti nýjum nemendum. Mikilvægt er að nemandinn og foreldrar hans fái strax í upphafi jákvæða mynd af skólanum og að foreldrum og nemendum finnist þeir velkomnir í skólann.

Þegar nýr nemandi er skráður í skólann er honum og foreldrum hans boðið að koma í heimsókn í skólann. Stjórnendur taka á móti þeim og kynna skólastarfið og sýna þeim húsnæðið. Ef nemandinn byrjar á miðju skólaári þá heimsækir hann umsjónarhópinn sinn en að hausti hittir hann umsjónarkennara.

Umsjónarkennarar eru beðnir um að hafa samband við heimili nýrra nemenda þegar ein til tvær vikur eru liðnar af skólatímanum. Þá gefst tækifæri til að ræða líðan nemandans og upplifun hans og foreldra af skólanum.

Prenta | Netfang