Sérkennsla

Í Kelduskóla er unnið eftir hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar sbr. stefnu fræðsluyfirvalda í Reykjavík, grunnskólalögum og Aðalnámskrá grunnskóla. Leiðir að því markmiði felast m.a. í einstaklings / hópamiðuðu námi, sveigjanlegum kennsluháttum, blönduðum námshópum, samstarfi kennara, fjölbreyttum og sveigjanlegum sérúrræðum og markvissum stuðningi við kennara.

Þegar upp kemur vandi hjá einstökum nemendum eða námshópum er lögð áhersla á að vandinn sé rétt skilgreindur, greindur og einstaklingsnámsrá unnin í samræmi við niðurstöður greiningar.

Á yngsta stigi, 1. – 4. bekk, er lögð áhersla á fyrirbyggjandi starf með markvissri mál- og hreyfiþjálfun sem fram fer í samstarfi umsjónarkennara, íþróttakennara, tónmenntakennara og sérkennara eða námsráðgjafa. Unnið er markvisst að því að finna og vinna með þau börn sem eru í áhættuhópi vegna lestrarerfiðleika og viðvarandi hegðunarerfiðleika.

Á miðstigi, 5. – 7. bekk, er m.a. unnið markvisst með námstækni og að kenna nemendum með sértækan námsvanda aðrar leiðir í námi. Nemandi með alvarlega lestrarerfiðleika þjálfast þannig í að nota ýmis hjálpartæki, s.s. hljóðbækur og tölvur þannig að hann nái sínum námsmarkmiðum eftir öðrum leiðum en þorri nemenda.

Á unglingastigi, 8. – 10. bekk, er lögð sérstök áhersla á námstækni. Að nemendur geri sér grein fyrir sterkum og veikum hliðum sínum í námi og þeir velji sér námsleiðir í samræmi við það. Með þessu eflist ábyrgð nemenda á eigin námi.

 Námsver

Í skólanum er námsver á báðum starfsstöðvum. Deildarstjóri sérkennslu hefur yfirumsjón með skipulagningu námsvers í samstarfi við stoðteymi. Í stoðteyminu starfa þroskaþjálfar, sérkennari, kennarar og stuðningsfulltrúar. Stoðteymið fundar einu sinni á viku 40 mín í senn og þar er skipulag starfsins rætt. Stoðteymið sinnir stuðningi við einstaklinga og hópa eftri þörfum.

Hlutverk námsvers er fjórþætt:

1. Að sinna sérkennslu fyrir nemendur sem eiga í námserfiðleikum og/eða hegðunarerfiðleikum. Nemendur fá ýmist kennslu tímabundið eða allt skólaárið. Í námsveri er lögð áhersla á sérkennslu í lestri, íslensku og stærðfræði. Auk þess er farið í félagsfærni og hegðunarmótun. Nemendur fá ýmist einstaklingstíma eða eru í hópum, sumir fá hvoru tveggja.

2. Að halda utan um þær skimanir og greiningar sem gerðar eru í skólanum eins og lestrarskimanir og stærðfræðiskimanir.

3. Að halda utan um safn sérhæfðra námsgagna sem kennarar geta notfært sér.

4. Að vera ráðgefandi. Kennarar geta leitað eftir aðstoð eða samvinnu aðila stoðteymis ef aðlaga þarf námsefni að einstaklingi eða hóp og við gerð einstaklingsnámskráa.

Telji kennari að nemandi hafi þörf fyrir sérkennslu í námsveri eða stuðning í bekk, geta þeir tekið málið upp á nemendaverndarráðsfundi eða rætt það við deildarstjóra sérkennslu.

Prenta | Netfang