Skip to content

Sérkennsla

Í Kelduskóla er unnið eftir hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar sbr. stefnu fræðsluyfirvalda í Reykjavík, grunnskólalögum og aðalnámskrá grunnskóla. Leiðir að því markmiði felast m.a. í einstaklings/hópamiðuðu námi, sveigjanlegum kennsluháttum, blönduðum námshópum, samstarfi kennara, fjölbreyttum og sveigjanlegum sérúrræðum og markvissum stuðningi við kennara.

Þegar upp kemur vandi hjá einstökum nemendum eða námshópum er lögð áhersla á að vandinn sé rétt skilgreindur, greindur og einstaklingsnámsrá unnin í samræmi við niðurstöður greiningar.

Á yngsta stigi, 1. – 4. bekk, er lögð áhersla á fyrirbyggjandi starf með markvissri málörvun og hreyfiþjálfun sem fram fer í samstarfi umsjónarkennara, íþróttakennara, tónmenntakennara og sérkennara eða námsráðgjafa. Unnið er markvisst að því að finna og vinna með þau börn sem eru í áhættuhópi vegna lestrarerfiðleika og viðvarandi hegðunarerfiðleika.

Á miðstigi, 5. – 7. bekk, er m.a. unnið markvisst með námstækni og að kenna nemendum með sértækan námsvanda aðrar leiðir í námi. Nemandi með alvarlega lestrarerfiðleika þjálfast þannig í að nota ýmis hjálpartæki, s.s. hljóðbækur og tölvur þannig að hann nái sínum námsmarkmiðum eftir öðrum leiðum en þorri nemenda.

Á unglingastigi, 8. – 10. bekk, er lögð sérstök áhersla á námstækni. Að nemendur geri sér grein fyrir sterkum og veikum hliðum sínum í námi og þeir velji sér námsleiðir í samræmi við það. Með þessu eflist ábyrgð nemenda á eigin námi.

Nemendaverndarráð

Í samræmi við grunnskólalög er starfrækt nemendaverndarráð í Kelduskóla, ráðið fundar hálfs mánaðarlega. Í nemendaverndarráði sitja stjórnendur, námsráðgjafi, , félagsráðgjafi, sálfræðingur og skólahjúkrunarfræðingur. Hlutverk nemendaverndarráðs er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi heilsugæslu, námsráðgjöf og sérfræðiþjónustu ásamt því að vera til aðstoðar við gerð og framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur. Kennarar, með samþykki foreldra, og/eða foreldrar geta vísað málum til ráðsins ef áhyggjur eru af námsframvindu og/eða félagslegum samskiptum nemenda.

Sálfræðiþjónusta

Miðgarður er þjónustumiðstöð fyrir Grafarvogs- og Kjalarnessbúa. Þangað sækja grunn- og leikskólar sérfræði- og félagsþjónustu. Hlutverk sérfræðiþjónustu er að aðstoða nemendur og foreldra þeirra vegna erfiðleika sem upp kunna að koma. Það geta verið vandkvæði tengd námi og skólagöngu eða heimili og fjölskyldu. Í sérfræðiþjónustunni felast sálfræðilegar athuganir og ráðgjöf, ráðgjöf vegna sérkennslu, kennsluráðgjöf, unglingaráðgjöf ásamt almennri félagslegri ráðgjöf, t.d. vegna húsnæðismála, fjármála eða fötlunarmála.

Áfallaráð

Skólastjóri, eða staðgengill hans ber ábyrgð á að kalla saman áfallaráð og stýra vinnu þess og skipulagi.

Í áfallaráði sitja skólastjóri, skólahjúkrunarfræðingur, sálfræðingur skólans og sá starfsmaður skólans sem næst stendur málinu. Einnig er hægt að kalla til sóknarprest sé þess óskað.

Hlutverk

Hlutverk áfallaráðs er að vera skólastjórnendum og öðru starfsfólki skólans til aðstoðar við að mæta ýmiss konar áföllum sem nemendur og/eða starfsfólk verður fyrir eða tengjast með einum eða öðrum hætti.

Áfallaráð skal funda strax að hausti og athuga hvort breyting hafi orðið á aðstæðum nemenda eða starfsfólks vegna alvarlegra slysa, veikinda, dauðsfalla eða annarra áfalla. Áfallaráð skal ræða þau áföll sem upp hafa komið og taka ákvörðun um hvort eða til hvaða aðgerða skal gripið.

Skrifstofa skólans skuli halda sérstaklega utan um slíkar upplýsingar.

Viðbrögð við áföllum  -hlekkur

Lausnateymi

Við Kelduskóla er starfandi lausnateymi og er hlutverk þess að veita kennara ráðgjöf á jafningjagrundvelli vegna mála sem leita þarf lausna við. Lausnateymi er til stuðnings kennara vegna nemenda með námserfiðleika, samskipta- eða hegðunarerfiðleika. Lausnin er unnin stig af stigi. Meðlimir teymisins leggja fram mismunandi sérþekkingu og ábyrgð, þeir vega hvern annan upp  og treysta á sérhæfingu hvers annars, þannig að þekking teymisins er alltaf fullnýtt. Í lausnateymi eru þrír starfsmenn sem hittast eftir þörfum, verkefnastjóri, kennari og námsráðgjafi. Teymið getur valið starfsmenn eftir þörfum þess sem sækir um aðstoð. Mælt er með að kennari sem sendir inn erindi velji einn aðila með sér á fundinn. Sótt er skriflega um á sérstakt eyðublað þar sem koma fram helstu upplýsingar um málið og hvaða leiðir hafa verið farnar að lausn þess. Fundir lausnateymis fara eftir föstum vinnureglum.

Hlekkur fyrir vinnureglur - texti sem kemur:

Hverjum fundi er skipt upp í nokkur stig:

 • Stjórnandi teymisins fer yfir umsóknina og útskýrir tilefni fundarins sem getur verið mismunandi eftir eðli málsins hverju sinn.
 • Sá sem biður um fundinn útskýrir eðli málsins
 • Aðilar teymisins spyrja opinna spurninga, til að greina málið. Alltaf er spurt sólarsinnis frá stjórnanda, ein spurning á mann. Stjórnanda er heimilt að fara annan spurningahring.
  Stjórnandinn tekur saman aðalatriði málsins og hefur leit að lausnum.
 • Stuttum hnitmiðuðum tillögum til lausna er beint til stjórnandans. Sá sem bað um fundinn heldur sig til hlés á meðan þetta fer fram. Það sem mikilvægt er á þessu stigi málsins er að gera engar tilraunir til að meta þær hugmyndir sem fram koma. Það er oft sem fleiri en ein leið kemur til greina sem lausn og með því að fá nokkrar lausnir eru meiri líkur á því að samkomulag náist um aðferð sem vænleg er til árangurs og henti þeim sem bað um fundinn. Lausna er leitað sólarsinnis eins marga hringi og stjórnandi telur nauðsynlegt. Allar lausnir eru skráðar af ritara.
 • Stjórnandinn og sá sem biður um fundinn fara yfir mögulegar lausnir. Kennarinn velur vænlegustu leiðina úr þeim hugmyndum sem fram hafa komið og flokkar þær:
 • Aðgerð sem hann vill nota strax.
 • Aðgerð sem kemur vel til greina (ekki forgangur)
 • Aðgerð sem hann hefur þegar reynt og hefur ekki virkað
 • Stjórnandinn dregur saman atriði fundarins og leitar eftir því hvort sá sem bað fundinn sé sáttur við niðurstöðuna.
 • Hver fundur fer aldrei yfir 60 mínútur.
 • Hálfum mánuði eftir fund fer stjórnandi yfir málið með þeim sem bað um fundinn og fylgir málinu eftir.