Grænn skóli

Kelduskóli er Grænfánaskóli eða Skóli á grænni grein. Grænfáninn er viðurkenning fyrir þá skóla sem standa sig vel í umhverfismálum og hafa skýra umhverfisstefnu.
Í skólanum er unnið að því að auka þekkingu og virðingu nemenda fyrir umhverfinu og skapa jákvætt viðhorf nemenda og starfsmanna til umhverfismála.
Skóli sem flaggar Grænfánanum þarf að hafa góða umhverfisfræðslu. Hann þarf að setja sér skýr markmið sem þarf að uppfylla.
Við skólann er starfandi umhverfisnefnd þar sem fulltrúar nemenda, foreldra, kennara og annars starfsfólks eru þátttakendur. Umhverfisnefndin fjallar um þau verkefni sem sett eru fyrir hvert skólaár af umhvefisráði sem í starfa 4-6 starfsmenn skólans. 

Markmið með umhverfisfræðslu eru:

 • að auka umhverfisvitund nemenda og starfsmanna með fræðslu og verkefnum innan kennslustofu og utan skólans, t.d. með útikennslu
 • að hvetja nemendur til sparnaðar og endurnýtingar eftir því sem kostur er
 • að vekja athygli og áhuga nemenda á umhverfinu og náttúrunni
 • að hvetja nemendur til að vernda náttúruna
 • að nemendur kynni foreldrum og nær samfélagi hvað gera þurfi í umhverfismálum

Meðal fastra verkefna í skólanum eru:

 • að flokka pappír og lífrænan úrgang
 • að jarðgera lífrænan úrgang
 • að setja niður grænmeti á vorin og taka það upp á haustin
 • að búa til kerti fyrir jólin
 • að útikennsla sé hluti af því námi sem fram fer
 • að vera í samstarfi við Leikskólann Bakkaberg, samræma aðgerðir

Helstu áherslur:

Bæta okkur enn frekar í endurnýtingu og sparnaði á auðlindum jarðarinnar  með því að:

 • nota fjölnota drykkjarílát fyrir vatn og mjólk
 • nýta betur pappírinn okkar t.d. nota báðar hliðar á blöðum, prenta einungis það sem er nauðsynlegt og stilla ljósritun í hóf
 • gefa hlutum nýtt líf, hugsa áður en við hendum 
 • halda áfram því starfi sem hafið er í kertagerð
 • draga enn frekar úr notkun einnota umbúða, s.s. plastfilmu, plastdósa, álpappírs og plastpoka
 • halda umhverfi skólans hreinlegu
 • spara rafmagn t.d. með því að slökkva ljós þar sem þeirra er ekki þörf
 • hafa “jafnan” hita á ofnum 
 • nota umhverfisvæn hreinsiefni
 • vinna markvisst að þróun útikennslu
 • huga að holtinu á bak við Kelduskóla Vík, að hólnum í Kelduskóla Korpu og gróðri í skólaumhverfinu
 • auka hreyfingu nemenda t.d. með því að ganga í skólann
 • stuðla að virðingu fyrir öðrum lífverum með virkri þátttöku í dýravernd og meðferð dýra t.d. með því að gefa fuglunum á veturna

Í öllu starfi innan skólans gildi flokkun úrgangs, s.s. á árshátíð,öskudag, skólahátíðum og tómstundastarfi frístundaheimila.

Kelduskóli hefur gert sér Umhverfissáttmála í formi lagatexta sem er eftirfarandi:

Náttúran, loftið og vatnið mitt,

umhverfið allt er líka þitt.

Að bæta og varðveita allt ég hef

við tökum í því sjálfstæð skref.

(Viðlag)

Þetta er sáttmálinn minn og þinn

því hjálpina þarf heimurinn

Vinnum saman öll sem eitt.

Ekki gera ekki neitt!

Eitt skref í einu er það sem þarf.

Að verja og bæta er okkar starf.

Við tökum svo skrefin í rétta átt.

Um ábyrgð þarf að ríkja sátt

(Viðlag)

Grænfáninn okkar í loftið fer

í Kelduskóla við hjálpum þér.

Hjálpum hvert öðru að taka skref,

það góða ráð ég öðrum gef.

Prenta | Netfang