Stefna skólans

   

Gildi Kelduskóla eru ábyrgð, áræðni og virðing

Hlutverk Kelduskóla

Hlutverk Kelduskóla er að bjóða upp á fjölbreytt og skapandi nám sem stuðlar að alhliða þroska nemenda. Með það að markmiði að þeir verði sjálfstæðir og skapandi einstaklingar, virkir og ábyrgir í síbreytilegu samfélagi.

Framtíðarsýn

Í Kelduskóla er lærdómssamfélag þar sem nemendur, foreldrar og starfsfólk eru virkir þátttakendur. Nemendur fá tækifæri til að njóta hæfileika sinna og rækta heilbrigðan lífsstíl og samskipti í hvetjandi og jákvæðu námsumhverfi.

Hlutverk, framtíðarsýn og gildi Kelduskóla voru unnin út frá niðurstöðum stefnumótunarvinnu starfsmanna og foreldra. Út frá þeim niðurstöðum verður einnig unnið skorkort fyrir Kelduskóla og frekari stefnumótun.

Í Kelduskóla er unnið samkvæmt stefnu fræðsluyfirvalda um skóla án aðgreiningar. Lögð er áhersla á

• einstaklings / hópamiðað nám. Þegar nám er einstaklingsmiðað er hverjum og einum nemanda mætt þar sem hann er staddur í námi og þess er vænst að nemendur leggi það af mörkum sem þeir geta í námi sínu

• kennsla nemenda með sérþarfir samþætt viðfangsefni námshópa

• teymiskennslu

• samþættingu námsgreina – að nemendur geti nýtt sér tölvutæknina í sem flestum námsgreinum

• fjölbreyttar kennsluaðferðir

• sjálfstæð vinnubrögð, sköpun og frumkvæði

• umhverfismennt.

Kelduskóli leggur áherslu á heilbrigðan lífstíl og útiveru. Stefnt er að því að útikennsla verði samofin skólastarfinu allt árið um kring. Nemendur fara ásamt kennurum, í lengri og styttri vettvangsferðir sem tengjast ýmsum námsgreinum og falla undir markmið Aðalnámskrár grunnskóla.

Helstu markmið með útikennslunni:

• að nýta fjölbreytt umhverfi skólans til að auðga kennsluna og tengja hana samfélagi og náttúru.

• að nemendur kynnist vel nánasta umhverfi sínu og láti sér annt um það.

• að efla virðingu nemenda fyrir náttúrunni og umhverfi sínu.

• að leggja áherslu á útiveru nemenda og stuðla þannig að jákvæðri sjálfsmynd þeirra.

 Leiðir að stefnu skólans

Virðing

Lögð er áhersla á virðingu í víðtækum skilningi. Sjálfsvirðingu nemenda, virðingu fyrir öðrum nemendum og starfsfólki, virðingu fyrir eigin eigum og annara. Virðingu fyrir fólki með mismunandi bakgrunn og skoðanir.

Virðingu fyrir náttúrunni, nemendur læri að meta og þekkja íslenska náttúru þannig að þeir kunni að njóta hennar og nýta á skynsamlegan hátt.

Virðing á að einkenna öll samskipti í Kelduskóla.

Lögð er áhersla á elskulegt viðmót í Kelduskóla. Andrúmsloftið á að vera hvetjandi og hlúa að velferð einstaklinganna sem mynda skólasamfélagið. Allir sem til okkar leita eiga að finna sig velkomna.

Lögð er áhersla á samvinnu heimilis og skóla og virkt foreldrasamstarf. Einnig er lögð er áhersla á tengsl við grenndarsamfélagið.

Ábyrgð

Lögð er áhersla á:

Ábyrgð nemenda á eigin námi m.a. með sveigjanlegum kennsluháttum sem taka mið af mismunandi hæfni nemenda.

Að vinna með sterkar hliðar nemenda og styrkja þannig sjálfsmynd og sjálfstraust þeirra.

Á samvinnu og samhjálp nemenda. Kennslan fer fram í misstórum hópum allt eftir verkefnum hverju sinni.

Vinnusvæði nemenda á að bjóða bæði upp á einstaklings- og hópavinnu.

Samþætting námsgreina, þ.e. námsgreinar renna saman að nokkru og unnið er út frá ákveðnum þemum. Vinna fer fram innan og utan skólans.

Nemendur fái þjálfun í að leita að upplýsingum í bókum, í umhverfinu, af neti o.s.frv. og læri að skoða allar upplýsingar af gagnrýni og geti þannig flokkað þær og metið.

Gengið er út frá kenningum Howard Gardner sem leggja áherslu á mismunandi hæfni nemenda. Fjölbreytileika einstaklinganna er hampað og viðurkennt að nemendur búa yfir margvíslegri færni og geta haft mismunandi bakgrunn. Einnig er gengið út frá hugsmíðahyggjunni og því er lögð áhersla á að byggja á fyrri þekkingu nemandans og gera hann virkan þátttakanda í eigin námi.

Lögð er áhersla á samvinnu kennara og teymisvinnu þannig að kennarar beri sameiginlega ábyrgð á kennslu bekkja og árganga. Með samvinnu gefst kennurum kostur á að njóta sín betur í starfi. Þeir geta samnýtt mismunandi hæfni og þekkingu. Þannig gefst kennurum kostur á að leysa hin ýmsu mál sem upp koma sameiginlega og sjá með því móti fleiri lausnir. Einnig gefst þeim tækifæri til að vinna markvisst saman að skólaþróun. Kennarar vinna saman að því að skipuleggja hvetjandi námsumhverfi og aðstæður.

Áræðni og sköpun

Í Kelduskóla er skapandi skólastarf. Sköpunarkraftur og hugmyndaflug nemenda er virkjað. Nemendur fá þjálfun til þess að takast á við ýmis verkefni þar sem reynir á hæfni til þess að leysa vandamál og nota skapandi og gagnrýna hugsun.

Umsjónarkennarinn gegnir lykilhlutverki. Hann byrjar daginn á því hjá yngsta stigi og miðstigi á að fara yfir verkefni dagsins með nemendum sínum og nemendur ljúka vinnudeginum hjá umsjónarkennaranum þar sem farið er yfir vinnu dagsins og lögð eru drög að næsta degi.

Kelduskóli – Korpa og Vík er staðsettur í nánd við fjölbreytta náttúru. Lögð er áhersla á kennslu tengda náttúrunni. Umhverfismennt er sjálfsagður þáttur í náttúrufræðikennslu skólans. Kelduskóli hefur hlotið Grænfána Landverndar fyrir umhverfisstefnu sína og er því Grænfánaskóli.

Prenta | Netfang